Lokakeppni Gulleggsins, stærstu og elstu frumkvöðlakeppni Íslands, á vegum Icelandic Startups fór fram í hátíðarsal Grósku föstudaginn 4. febrúar. Mikil spenna var í loftinu allan föstudaginn hjá teymunum tíu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-. Iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, tilkynnti um þrjú efstu sætin en Landsbankinn veitti verðlaunaféð.
Fyrsta sætið hlaut TVÍK en frumkvöðlarnir eru þau Gamithra Marga, Safa Jemai og Atli Jasonarson. Annað sætið hlaut SEIFER og eru þau Guðrún Inga Marinósdóttir, Davíð Anderson og Bjarki Snorrason á bakvið hugmyndina. Lilja app hreppti þriðja sætið og í teyminu eru þær Ingunn Henriksen og Árdís Rut Einarsdóttir. Að auki fékk SEIFER styrk frá KPMG og Lilja app frá Verði tryggingum og Huawei.
Almenningur kaus vinsælasta teymið á vefsíðu Gulleggsins en um 1800 manns kusu og hlaut teymið Vetur Production þá flottu viðurkenningu og jafnframt fékk teymið styrk frá Advel. Frumkvöðlarnir á bakvið hugmyndina eru þau Máney Eva Einarsdóttir, Stella Björk Guðmundsdóttir, Hanna Dís Hallgrímsdóttir, Sandra Ósk Júníusdóttir og Ingibjörg Hrefna Pétursdóttir.
TVÍK
1. Sætið
„TVÍK, eða tæknivæddi íslenskukennarinn, er gagnvirkur kennsluvettvangur sem styðst við nýjustu máltækniaðferðir til að hjálpa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í að læra íslensku.„
SEIFER
2. Sætið
„SEIFER vinnur að því að hanna og þróa íþróttabúnað, ásamt gagnagrunni, sem sem er nýttur í rauntíma mælingar og gagnasöfnun varðandi höfuðhögg. Með gagnasöfnun búnaðarins er hægt að endurbæta bataferli og viðbragðsáætlanir gegn heilahristingum í íþróttum.„
Lilja app
3. Sætið
„Lilja app bjargráður þolenda til bættrar lagalegrar og félagslegrar stöðu.“
Vinsælasta teymið Vetur Production
„Vetur Production er íslenskt animation fyrirtæki sem framleiðir teiknimyndir upp úr þjóðsögum okkar og ævintýrum. Áhersla er lögð á fjölbreytileika og að varðveita íslenskan menningararf.„
Ótrúlegt ævintýri Gulleggsins 2022 hófst með upptakti í október með stærstu vísindaferð landsins til þessa en um 500 manns sóttu Grósku þar sem Þórunn Antónía steig á svið og gjörsamlega tryllti lýðinn eins og henni er einni lagið. Vísindaferðin setti tóninn fyrir það sem koma skyldi. Af þeim 155 hugmyndum sem komu inn, þar af yfir áttatíu kynningar sem voru sendar inn í lokakeppnina voru tíu valdar til að keppa um Gulleggið 2022 á föstudaginn var.
Bakhjarlar Gulleggsins, aðrir boðsgestir í sal og almenningur sem horfðu á í beinni útsendingu um land allt hlýddu hugfangin á hugmyndir allra keppenda og var andrúmsloftið spennuþrungið þegar niðurstöður um þrjú efstu sætin voru tilkynnt.
Mikill undirbúningur fór í lokadaginn en dagskráin breyttist eftir að tilkynnt var um breytingar um fjölda gesta á sitjandi viðburðum. Verkefnastjórar Icelandic Startups eru fljótir að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og því var hægt að bjóða upp á veglega dagskrá. Opnaði Bergur Ebbi keppnina í beinni útsendingu á Stöð 2 Vísi úr hátíðarsal Grósku við mikinn fögnuð viðstaddra.