Um Gulleggið

Gulleggið er frumkvöðlakeppni á hugmyndastigi sem haldin hefur verið af Klak – Icelandic Startups síðan 2008. Gulleggið hefur nú verið flutt af hausti og fram í janúar og samhliða því er verið að gera talsverðar breytingar á keppninni.

Áfram verður lögð rík áhersla á að þetta sé hugmyndakeppni og mega keppendur ekki hafa tekið inn fjármagn umfram 2 milljónir króna eða byrjað að hafa tekjur af hugmyndinni. Auk þess hefur verið fallið frá kröfu um tengsl við háskólana.

Gulleggið 2022

Lifandi samfélag frumkvöðla

Gulleggið er í umsjón Klak – Icelandic Startups sem býr að áralangri reynslu af þjálfun og stuðningi við frumkvöðla á fyrstu stigum.
Við framkvæmd Gulleggsins njótum við liðsinnis hátt í 100 einstaklinga á ári hverju; reyndra frumkvöðla, fjárfesta og annarra sérfræðinga sem hitta þátttakendur meðan á keppninni stendur og veita þeim leiðsögn og endurgjöf eða taka þátt í rýnihópi sem hefur það hlutverk að fara yfir viðskiptaáætlanir sem berast í keppnina. Þessi öflugi hópur fólks leggur fram tíma sinn í þágu verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag.

Bakhjarlar

Gulleggið hefur frá upphafi keppninnar notið stuðnings nokkurra öflugustu fyrirtækja og stofnana landsins. Bakhjarlar og styrktaraðilar og aðrir samstarfsaðilar Gulleggsins leggja lóð sín á vogarskálarnar með fjárframlagi og sérfræðiþekkingu til að tryggja framgang keppninnar. 

Verkefnastjórn Gulleggsins

Gullegginu er af stórum hluta stýrt af sjálfboðaliðum úr röðum nemenda. Árlega skipar verkefnastjórn keppninnar um tólf nemendur á vegum nýsköpunar og frumkvöðlanefnda Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Listaháskóla Íslands. Þessi hópur er skipaður til eins árs í senn og tekur þátt í fjölbreyttum verkefnum Icelandic Startups út skólaárið. 

Hlutverk þeirra í Gullegginu felst fyrst og fremst í því að sjá um skipulag og framkvæmd kepnninnar undir leiðsögn verkefnastjóra Icelandic Startups.