Um Gulleggið

Gulleggið er frumkvöðlakeppni á hugmyndastigi sem haldin er í upphafi hvers árs og haldin hefur verið af KLAK – Icelandic Startups síðan 2008. Keppnin er opin öllum, jafnt hugmyndasmiðum og áhugafólki um nýsköpun sem vill láta að sér kveða.

Gulleggið hefst í janúar með Hugmyndahraðhlaupi fyrir háskólanema og Masterclass-námskeiði 
þar sem markmiðið er að þróa hugmynd og búa til kynningu á henni sem gerir öllum kleift að taka næstu skref. 10 teymi eru svo valin inn í lokakeppni Gulleggsins sem fer fram í hátíðarsal Grósku. 

Lögð er rík áhersla á að þetta sé hugmyndakeppni og mega keppendur ekki hafa tekið inn fjármagn umfram 2 milljónir króna eða byrjað að hafa tekjur af hugmyndinni.

Gulleggið hefur verið stökkpallur fyrir fjölmörg íslensk fyrirtæki sem dæmi Controlant, Meniga, PayAnalytics, Genki, Taktikal og fjölmörg önnur.

Gulleggið 2022

Lifandi samfélag frumkvöðla

Gulleggið er í umsjón KLAK – Icelandic Startups sem býr að áralangri reynslu af þjálfun og stuðningi við frumkvöðla á fyrstu stigum.

Að framkvæmd Gulleggsins koma hátt í 100 einstaklingar á hverju ári. Reyndir frumkvöðlar, fjárfestar og aðrir sérfræðingar sem hitta þátttakendur meðan á keppninni stendur og veita þeim leiðsögn og endurgjöf eða taka þátt í rýnihópi sem hefur það hlutverk að fara yfir viðskiptaáætlanir sem berast í keppnina. Þessi öflugi hópur fólks leggur fram tíma sinn í þágu verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag.

Bakhjarlar

Gulleggið hefur frá upphafi keppninnar notið stuðnings nokkurra öflugustu fyrirtækja og stofnana landsins. Bakhjarlar og styrktaraðilar og aðrir samstarfsaðilar Gulleggsins leggja lóð sín á vogarskálarnar með fjárframlagi og sérfræðiþekkingu til að tryggja framgang keppninnar. 

Verkefnastjórn Gulleggsins

Gullegginu er af stórum hluta stýrt af sjálfboðaliðum úr röðum nemenda. Árlega skipar verkefnastjórn keppninnar um tólf nemendur á vegum nýsköpunar og frumkvöðlanefnda Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Þessi hópur er skipaður til eins árs í senn og tekur þátt í fjölbreyttum verkefnum.

Hlutverk þeirra í Gullegginu felst fyrst og fremst í því að sjá um skipulag og framkvæmd keppninnar undir leiðsögn verkefnastjóra KLAK – Icelandic Startups.