Frumkvöðlar og sprotar framtíðarinnar komu saman á Akureyri á kynningu Gulleggsins, stærstu frumkvöðlakeppni Íslands á dögunum. Kynningin fór fram á Vamos við ráðhústorgið þar sem stjörnutvíeykið í Úlfur Úlfur gaf tóninn og trylltu lýðinn.
Vamos fylltist af sprotum, frumkvöðlum og fólki sem ganga með góðar hugmyndir í maganum til að hlýða á kynningu Gulleggsins. Gríðarleg góð stemmning myndaðist þegar öll áttu möguleika að vinna ferð suður á Masterclass Gulleggsins í janúar. Það var hann Ívar Örn Marteinsson sem vann en hann er einn stofnenda sprotans Pelliscol sem tók þátt í viðskiptahraðlunum Vaxtarými í umsjá Norðanáttar, stoðumhverfi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki á Norðurlandi.
Kynningar á Gullegginu fór vonum framar en Landsbankinn, KPMG, Hugverkastofa, Marel og Controlant, bakhjarlar Gulleggsins voru með eigin kynningarbása þar sem fulltrúar fyrirtækjanna voru í góðu stuði og kynntu starfsemi sína. Controlant var í fyrsta skiptið með á kynningarviðburði Gulleggsins en þau unnu Gulleggið árið 2009 og er því fyrsti bakhjarlinn sem unnið hefur Gulleggið.
Helga Bestla Baldursdóttir og Auðbjörg Ólafsdóttir frá Controlant:
”Við erum gríðarlega stolt af því að vera bakhjarl Gulleggsins og af því að geta gefið tilbaka og stutt við nýsköpunarsamfélagið á Íslandi. Keppnin skipar sérstakan sess í sögu Controlant, sem árið 2009 vann Gulleggið og var viðurkenningin gríðarleg hvatning fyrir stofnendur Controlant. Það var æðislegt að koma til Akureyrar og finna fyrir kraftinum í fólkinu þar, en miðað við samtölin er framtíðin heldur betur björt í nýsköpun á Íslandi, og við spennt að fá að fylgjast með og styðja við frumkvöðla framtíðarinnar”.
Ása María Þórhallsdóttir, verkefnastjóri Gulleggsins:
“Við erum mjög ánægð með hversu vel gekk og hvað margt mætti á kynningu Gulleggsins. Það er alltaf einstakt að koma norður á Akureyri og finna fyrir öflugu tengslaneti frumkvöðla og sprota sem brenna fyrir nýsköpun. Við hlökkum til að sjá sem flesta fyrir norðan skrá sig í Gulleggið.”